Fíkn

Af hverju heitir allt fíkn núna?

Freistingar eru oft mjög sterkar, án þess að vera fíkn.

Að vilja eitthvað þvert gegn betri vitund, þrá það þegar maður fær það ekki, og gefa eftir þó maður ætti ekki að gera það… er freisting.

Ekki fíkn.

Föstudagskvöld

„Haltu því þurru, ekki fara í bað eða sund í nokkra daga. Sturta er í lagi. Þú getur náð í sýklalyfin niður í apótekið, ég er búin að senda rafrænan lyfseðil. Svo kemurðu bara aftur ef þetta lagast ekki eðlilega.“ Læknirinn leit yfir umbúðirnar og stóð svo upp til að kveðja. Skrýtið hvað hún virtist stærri þegar hún sat, hugsaði hann. Hann veifaði stuttlega þar sem hann gat ekki tekið í hönd hennar vegna meiðslanna.

Hann veiddi veskið upp úr vasanum á leiðinni í apótekið. Afkáralegur án nota af hægri hönd. Klemmdi veskið að síðunni með hægri olnboga og gramsaði í því með þeirri vinstri. Skilríki og peningur.

Það var enginn í apótekinu nema afgreiðslukonan. Hún afgreiddi hann snögglega.

„Leiðbeiningarnar eru á pakkanum.“ Hún brosti. Hann brosti til baka.
„Takk.“
„Góða helgi.“

Hann greip pokann og dró upp bíllyklana á leiðinni út á bílastæðið. Það voru örfáir bílar á stangli, fáir á ferli svona seint að kvöldi. Hann gekk að silfraða jeppanum sínum, klifraði upp í hann og skellti pokanum í farþegasætið.

Ég verð að hætta þessu, hugsaði hann. Deyfingin var strax farin að dofna. Saumarnir gætu haldið þessu saman en sárið var svo ójafnt og rifið. Verkurinn yrði leiðinlegur.

Næst læt ég andlitið í friði. Helvítis tennur.

Vinan

Ekki fikta í kjólnum. Sæta græna kjólnum, þessum sem virkar með öllu. Hendurnar hennar voru læstar í hnefa. Hún hélt þeim spenntum, beint niður með síðum, til að toga hann ekki til. Laga brjóstahaldarann. Draga niður pilsið. Ekki fikta! Ekki snerta hárið, það er fínt. Ekki snerta andlitið, það er í lagi. Hún starði beint áfram. Hver einasti glampandi flötur var þráhyggjufreisting. Hælarnir bergmáluðu, þrátt fyrir kliðinn í Kringlunni svona skömmu fyrir jól.

Hún nam staðar. Mannþröngin flæddi framhjá sitthvoru megin. Hún dró djúpt inn andann. Opnaði munninn til að slaka á kjálkanum. Teygði sundur fingurna til að slaka á höndunum. Andaði út. Axlirnar slökuðu aðeins, þó hjartað berðist eins og fugl í búri. Þetta er allt í lagi. Allt í lagi.

Ungur maður með vingjarnlegt andlit staldraði við og lagði höndina létt á öxl hennar.
„Er allt í lagi, vinan?“
Hjartað hoppaði yfir slag. Vinan.
Hún grandskoðaði andlit hans. Einlægni og kurteisisleg umhyggja skein í gegn.

Bros sem ógnaði tárum lýsti upp andlit hennar. Vinan!
„Já. Já! Það er allt í lagi!“
„Ókei,“ hló hann. „Gleðileg jól.“
„Gleðileg jól!“ sagði hún af innlifun. Hún horfði á eftir honum fara og gekk svo brosandi inn í fjöldann.